Hverju við trúum

Helstu trúarkenningar
Sjöunda dags aðventista

Sjöunda dags aðventistar líta á Biblíuna sem einu trúarjátningu sína og telja ákveðin grundvallarsannindi vera kenningu Heilagrar ritningar. Sannindi þessi, eins og þau eru sett fram hér, lýsa skilningi safnaðarins á kenningum Biblíunnar og framsetningu hans á þeim.


Búast má við endurskoðun á framsetningu þessara sanninda á þingi Aðalsamtakanna eftir því sem Heilagur andi leiðbeinir söfnuðinum til fyllri skilnings á sannindum Biblíunnar eða betra orðalag finnst til að lýsa kenningum þeim sem felast í heilögu orði Guðs.

1. Heilög ritning

Heilög ritning, Gamla og Nýja testamentið, er hið ritaða orð Guðs, borið fram af helgum guðinnblásnum mönnum, sem töluðu og rituðu eins og Heilagur andi blés þeim í brjóst. Í þessu orði hefur Guð veitt mannkyninu þá þekkingu sem nauðsynleg er til sáluhjálpar. Heilög ritning er hin óskeikula Opberun á vilja Guðs. Hún er mælikvarði á lyndiseinkunn mannsins, prófsteinn á mannlega reynslu, óvéfengjanleg Opberun kenninga og áreiðanleg heimild um athafnir Guðs í sögu mannkynsins.
(Slm. 119.105; Okv. 30. 5, 6; Jes. 8. 20; Jóh. 17. 17; 1Þess. 2.13; 2. Tím. 3. 16, 17; Heb. 4.12; 2 Pét. 1. 2, 21.)

2. Þrenningin

Guð er einn. Faðir, sonur og Heilagur andi, eining þriggja sam-eilífra persóna. Guð er ódauðlegur, almáttugur, alvitur, öllu ofar og ávallt nálægur. Hann er óendanlegur og ofar mannlegum skilningi, en þó þekktur vegna þess að hann hefur Opberað sig. Hann er eilíflega verðugur tilbeiðslu, lotningarfullrar aðdáunar og þjónustu alls hins skapaða.
(1Mós. 1.26; 5Mós. 6. 4; Jes. 6.8; Matt. 28. 19; Jóh. 3.16; 2Kor. 1.21, 13.14; Ef. 4. 4-6; 1Pét. 1. 2.)

3. Faðirinn

Guð, hinn eilífi faðir, er skapari, uppspretta, sem viðheldur öllu og er alvaldur allrar sköpunarinnar. Hann er réttlátur og heilagur, miskunnsamur og náðarríkur, seinn til reiði og fullur staðfastrar elsku og tryggðar. Þeir eiginleikar og þær eigindir, sem sonurinn og Heilagur andi búa yfir, eru einnig Opberun hins sama hjá föðurnum.
(1Mós. 1. 1; 5Mós. 4.35; Slm. 110.1,4; Jóh. 3. 16; 14.9; 1Kor. 15.28; 1. 1.17; 1Jóh. 4.8; Opb. 4. 11.)

4. Sonurinn

Guð, sonurinn eilífi, varð hold í Jesú Kristi. Fyrir tilstilli hans voru allir hlutir skapaðir, grundvallareðli Guðs Opberað, mannkyninu búið hjálpræði og heimurinn dæmdur. Hann er sannur Guð frá eilífum tíðum en gerðist einnig sannur maður, Jesús Kristur. Hann var getinn af Heilögum anda og fæddur af Maríu mey. Hann lifði og varð fyrir freistingum eins og hver annar maður en birti fullkomlega réttlæti og kærleika Guðs í lífi sínu. Með kraftaverkum sínum sýndi hann mátt Guðs og það sannaðist, að hann var hinn fyrirheitni Messías Guðs. Hann leið og dó sjálfviljuglega á krossi fyrir syndir okkar og í okkar stað, var reistur upp frá dauðum og steig upp til himna til þess að þjóna í hinum himneska helgidómi fyrir okkur. Hann mun koma aftur í dýrð til að frelsa endanlega lýð sinn og að endurreisa alla hluti.

(Jes. 53.4-6; Dan. 9.25-27; Lúk. 1.35; Jóh. 1.1-3, 14; 5.22; 10.30; 14.1-3, 9, 13; Róm. 6.23; 1Kor. 15.3,4; 2Kor. 3.18; 5.17-19; Fil. 2.5-11; Kól. 1.15-19; Heb. 2.9-18; 8.1,2.)

5. Heilagur andi

Guð hinn eilífi Andi tók, ásamt föðurnum og syninum, virkan þátt í sköpuninni, holdtekjunni og endurlausninni. Hann veitti þeim guðlega andagift, sem rituðu bækur Biblíunnar. Hann fyllti líf Krists mætti. Hann laðar menn til sín og sannfærir þá um synd. Þá, sem veita honum viðtöku, endurnýjar hann og umbreytir í ímynd Guðs. Hann er sendur af föðurnum og syninum til að vera ávallt með börnum Guðs. Hann gefur söfnuðinum andlegar gjafir, veitir honum kraft til að bera Kristi vitni og leiðir hann, samkvæmt Heilagri ritningu, í allan sannleikann.
(1Mós. 1.1,2; 2Sam. 23.2; Slm. 52.11; Jes. 61.1; Lúk. 1.35; 4.18; Jóh. 14.16-18, 26; 15.26; 16.7-13; Post. 1.8; 5.3; 10.38; Róm. 5.5; 1Kor. 12.7-11; 2Kor. 3.18; 2Pét. 1.21.)

6. Sköpunin

Guð er skapari alls og hefur gefið okkur í Biblíunni áreiðanlega frásögn af sköpunarstarfi sínu. Á sex dögum skapaði Drottinn ,,himin og jörð” og allt, sem lífsanda dregur á jörðinni, og hvíldist á sjöunda degi þessarar fyrstu viku. Þar með stofnaði hann hvíldardaginn til ævarandi minningar um lok sköpunarverks síns. Fyrsti maðurinn og fyrsta konan voru sköpuð í mynd Guðs sem kóróna sköpunarverksins, þeim veitt yfirráð yfir allri jörðinni og falin sú ábyrgð að annast hana. Þegar jörðin var fullnuð var hún ,,harla góð” og bar dýrð Guðs vitni.
(1Mós. 1-2; 5; 11; 2Mós. 20. 8-11; Slm. 19. 1-6; 33. 6, 9; 104; Jes. 45.12,18; Post. 17.24; Kól. 1.16; Heb. 1.2; 11.3; Opb. 10.6; 14.7.)

7. Eðli mannsins

Þau, karl og kona, voru sköpuð í mynd Guðs, hvort með sitt einstaklingseðli og hæfileika og frelsi til að hugsa og framkvæma. Þótt þau hafi verið sköpuð frjáls, voru þau hvort um sig óaðskiljanleg eining líkama, hugar og anda og háð Guði um líf og anda og allt annað. Þegar fyrstu foreldrar okkar óhlýðnuðust Guði afneituðu þau því, að þau væru honum háð og féllu úr hinni háu stöðu sinni hjá Guði. Mynd Guðs í þeim saurgaðist og þau urðu undirorpin dauðanum. Niðjar þeirra gjalda þessa fallna eðlis og afleiðinga þess. Þeir eru fæddir með veilur og tilhneigingar til ills. En í Kristi sætti Guð heiminn við sig og með Anda sínum endurnýjar hann mynd skaparans í iðrandi dauðlegum mönnum. Þeir eru skapaðir Guði til dýrðar og kallaðir til að elska hann og hver annan og að annast umhverfi sitt.
(1Mós. 1. 26-28; 2. 7, 15; Slm. 8.4-8; 51.5,10; 58.3; Jer. 17.9; Post. 17. 24-28; Róm. 5.12–17; 2Kor 5. 19, 20; Ef. 2.2; 1Þess. 5.23; 1Jóh. 3.4; 4.7, 8, 11, 20.)

8. Deilan mikla

Allt mannkynið er nú þátttakandi í mikilli deilu milli Krists og Satans varðandi grundvallareðli Guðs, lögmál hans og yfirráð hans yfir alheiminum. Þessi barátta sem hófst á himni þegar sköpuð vera, gædd valfrelsi, varð, vegna sjálfsupphafningar, Satan eða andstæðingur Guðs, og tældi hluta af englaskaranum til uppreisnar. Hann bar uppreisnarandann með sér inn í þennan heim þegar hann tældi Adam og Evu til að syndga. Synd mannanna leiddi það af sér, að mynd Guðs í mannkyninu brenglaðist, glundroði komst á í hinum skapaða heimi og að honum var að lokum eytt á tíma alheimsflóðsins. Öll sköpunin fylgdist með því þegar þessi heimur varð vettvangur allsherjar átaka, en í þeim mun Guð kærleikans að síðustu fá uppreisn æru. Kristur sendir Heilagan anda og trúfasta engla lýð sínum til hjálpar í þessum miklu átökum til að leiðbeina honum, vernda hann og styrkja á vegi hjálpræðisins.
(1Mós. 3; 6-8; Job. 1.6-12; Jes. 14.12-14; Esk. 28.12-18; Róm. 1.19-32; 3.4; 5.12-21; 8.19-22; 1Kor.4.9; Heb. 1.14; 1Pét. 5.8; 2Pét. 3.6; Opb. 12.4-9.)

9. Líf Krists, dauði hans og upprisa

Í lífi Krists, sem einkenndist af fullkominni hlýðni við vilja Guðs, og í þjáningum hans, dauða og upprisu, tryggði Guð einu friðþægingarleiðina, sem til er, fyrir syndir mannanna, svo að þeir, sem í trú veita friðþægingu þessari viðtöku, geti öðlast eilíft líf og öll sköpunin skilji betur óendanlegan og heilagan kærleik skaparans. Þessi fullkomna friðþæging staðfestir réttlæti lögmáls Guðs og miskunnsemina í grundvallareðli hans, því að hún gerir hvorttveggja. að fordæma syndir okkar og afla okkur fyrirgefningar. Kristur dó sem staðgengill, og jafnframt til að friðþægja, sætta og umskapa. Upprisa Krists boðar sigur Guðs yfir öflum hins illa. Þeim, sem veita friðþægingunni viðtöku, veitir hún fullvissu um endanlegan sigur yfir synd og dauða. Hún kunngerir herratign Jesú Krists, sem hvert kné á himni og á jörðu mun beygja sig fyrir. (1Mós. 3.15; Slm. 22.1; Jes. 53; Jóh. 3.16; 14.30; Róm. 1.4; 3.25; 4.25; 8.3, 4; 1Kor. 15.3, 4,20-22; 2Kor. 5.14, 15, 19-21; Fil. 2.6-11; Kol. 2.15; 1Pét. 2.21, 22; 1Jóh. 2.2; 4.10.)

10. Hjálpræðið

Af óendanlega miklum kærleik og miskunn gerði Guð Krist, sem enga synd þekkti, að synd okkar vegna, svo að við mættum verða réttlæti Guðs í honum. Þegar við erum leidd af Heilögum anda finnum við þörf okkar, viðurkennum að við erum syndug, iðrumst misgjörða okkar og ástundum trú á Jesú sem Drottin og Krist, staðgengil okkar og fordæmi. Þessi trú, sem leiðir til þess að menn veita hjálpræðinu viðtöku, lifnar fyrir hinn guðlega mátt Okvins og er hún gjöf náðar Guðs. Fyrir Krist erum við réttlætt, meðtekin sem synir Guðs og dætur og frelsuð undan drottinvaldi syndarinnar. Fyrir Andann endurfæðumst við og helgumst. Andinn endurnýjar hugarfar okkar. Hann ritar kærleikslögmál Guðs í hjarta okkar og gefur okkur kraft til að lifa heilögu lífi. Með því að vera í honum fáum við hlutdeild í guðlegu eðli og öðlumst fullvissu um endurlausn nú og í dóminum.
(1Mós. 3.15; Jes. 45.22; 53; Jer. 33.33-34; Esk. 33.11; 36.25-27; Hab. 2.4; Mrk. 9.23,24; Jóh. 3.3-8,16; 16.8; Róm. 3.21-26; 8.1-4, 14-17; 5.6-10; 10.17; 12.2; 2Kor. 5.17-21; Gal. 1.4; 3.13, 14, 26; 4.4-7; Efe.2.4-10; Kól. 1.13,14; Tít. 3.3-7; Heb. 8.7-12; 1Pét. 1.23; 2.21, 22; 2Pét. 1.3,4; Opb. 13.8.)

11. Að vaxa í Kristi

Jesús sigraði til fulls hin illu öfl með krossdauða sínum.  Andaverur vonskunnar lutu valdi hans á hérvistardögum hans, og með dauða sínum braut hann vald þeirra á bak aftur og tryggði endanlegan dóm þeirra.  Sigur hans veitir okkur sigur yfir hinum illu öflum, sem sækja fast að okkur í okkar daglega lífi sem við göngum með honum í djúpum friði og fullvissu um kærleika hans.  Heilagur Andi dvelur hið innra með okkur og veitir okkur kraft.  Ok hins liðna er létt af herðum okkar er við felum líf okkar Jesú sem frelsara okkar og Drottni.  Svipt er burt hulu myrkurs, vanþekkingar, tilgangsleysis fyrra lífernis og óttans við hin illu öfl.  Við erum kölluð til vaxtar í líkingu við lyndiseinkunn Drottins í því frelsi sem Jesús veitir okkur og daglegra samskipta við hann í bæninni.  Við nærumst á orði hans, hugleiðum það daglangt og hversu hönd hans hvílir yfir okkur, syngjum honum lof,  stundum trúarsamfélagið og tökum þátt í boðun kirkjunnar.   Stöðug nærvera hans fyrir tilstilli Heilags Anda umbreytir sérhverju andartaki okkar og athöfn í ríkulega andlega reynslu um leið og við gefumst honum í þjónustunni fyrir hann fyrir aðra og þeirra sálarheill.
(1Kro. 29.11; Slm. 1.1,2; 23.4; 77.11, 12; Matt. 20.25-28; 25.31-46; Lúk. 10.17-20; Jóh. 20.21; Róm. 8.38, 39; 2Kor. 3.17,18; Gal. 5.22-25; Ef. 5.19,20; 6.12-18; Fil. 3.7-14; Kól. 1.13,14; 2.6, 14, 15; 1Þess. 5.16-18,23; Heb. 10.25; Jak. 1.27; 2Pét. 2.29; 3.18; 1Jóh. 4.4.)

12. Söfnuðurinn

Söfnuðurinn er samfélag trúaðra sem játa Jesú Krist sem Drottin sinn og frelsara. Sem arftakar lýðs Guðs á tímum Gamla testamentisins erum við kölluð út úr heiminum. Við komum saman til tilbeiðslu, til samfélags, til að fræðast um orð Guðs, til að neyta kvöldmáltíðar Drottins, til þjónustu við allt mannkyn og til boðunar Okvins um víða veröld. Söfnuðurinn fær vald sitt frá Kristi, sem er orðið holdi klætt, og Biblíunni, sem er hið ritaða orð. Söfnuðurinn er fjölskylda Guðs sem hann hefur tekið að sér sem börn sín. Þeir, sem heyra honum til, lifa á grundvelli hins nýja sáttmála. Söfnuðurinn er líkami Krists, trúarlegt samfélag þar sem Kristur sjálfur er höfuðið. Söfnuðurinn er brúðurin, sem Kristur dó fyrir til þess að hann gæti helgað hann og hreinsað. Þegar hann kemur aftur sem sigurvegari mun hann leiða hana fram fyrir sig sem dýrlegan söfnuð, hina trúföstu allra alda, þá sem hann keypti með blóði sínu og hvorki hafa blett né hrukku, heldur eru heilagir og lýtalausir.
(1Mós. 12.1-3; 2Mós. 19.3-7; Matt. 16.13-20; 18.18; 28.19, 29; Post. 2.38-42; 7.38; 1Kor. 1.2; Ef. 1.22, 23; 2.19-22; 3.8-11; 5.23-27; Kól. 1.17,18; 1Pét. 2.9.)

13. Leifarnar (hinir aðrir afkomendur konunnar) og köllun þeirra

Allsherjarsöfnuðurinn er byggður upp af öllum, sem í sannleika trúa á Krist, en á hinum síðustu dögum, tímum almenns fráhvarfs, hafa leifar verið kallaðar til að varðveita boðorð Guðs og trúna á Jesú. Leifar þessar kunngjöra að dómsstundin sé komin, boða hjálpræði í Kristi og láta það hljóma að endurkoma hans sé í nánd. Englarnir þrír í Opberunarbókinni 14. kafla eru táknmynd af þessari boðun. Hún fer fram á sama tíma og dómsrannsóknin á sér stað á himnum og leiðir til iðrunar og siðbótar á jörðinni. Sérhver trúaður maður er kallaður til gerast þátttakandi í þessum alheimsvitnisburði.
(Dan. 7.9-14; Jes. 1.9; 11.11; Jer. 23.3; Mik. 2.12; 2Kor. 5.10; 1Pét. 1.16-19; 4.17; 2Pét. 3.10-14; Júd. 3, 14; Opb. 12.17; 14.6-12; 18.1-4.)

14. Eining í líkama Krists

Söfnuðurinn er einn líkami með mörgum limum, sem kallaðir eru frá sérhverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð. Í Kristi erum við ný sköpun. Það, sem skilur að kynþætti, menningarsvæði, þjóðir og í þekkingu og munur á háum og lágum, auðugum og fátækum og körlum og konum, má ekki valda sundrungu okkar á meðal. Við erum öll jöfn í Kristi, sem fyrir einn og sama Anda hefur tengt okkur saman í eitt samfélag með honum og hvert með öðru. Við eigum að þjóna og njóta þjónustu án manngreinarálits eða skilyrða. Fyrir Opberun Jesú Krists í Biblíunni eigum við sömu trú og von og flytjum öllum einn og sama vitnisburð. Þessi eining á rót sína að rekja til einingar hins þríeina Guðs sem hefur tekið okkur að sér sem börn sín.
(Slm. 133.1; Matt. 28.19,20; Jóh. 17.20-23; Post. 17.26,27; Róm. 12.4,5; 1Kor. 12.12-14; 2Kor. 5.16, 17; Gal. 3.27-29; Ef. 2.13-16; 4.3-6, 11-16; Kól. 3.10-15.)

15. Skírn

Með skírninni játum við trú okkar á dauða Jesú Krists og upprisu, vottum að við séum dauð syndinni og að ásetningur okkar sé að ganga í endurnýjung lífsins. Þannig viðurkennum við Krist sem Drottin og frelsara, verðum lýður hans og erum meðtekin sem heyrandi til kirkju hans. Skírn er tákn um sameiningu okkar við Krist, um fyrirgefningu synda okkar og að við höfum tekið á móti Heilögum anda. Hún er framkvæmd með niðurdýfingu í vatn. Forsenda þess að láta skírast er að játa trú á Jesú og að fram komi iðrun gagnvart synd. Skírnin fer fram eftir að fólk hefur fengið fræðslu um Heilaga ritningu og tekið við kenningum hennar.
(Matt. 28.19, 20; Post. 2.38; 16.30-33; 22.16; Róm. 6.1-6; Gal. 3.27; Kól. 2.12, 13.)

16. Heilög kvöldmáltíð

Heilög kvöldmáltíð er hlutdeild í táknum líkama og blóðs Jesú og tjáning trúar á hann, Drottin okkar og frelsara. Við kvöldmáltíðina er Kristur viðstaddur til að finna fólk sitt og að styrkja það. Þegar við tökum þátt í þessari athöfn boðum við dauða Drottins fagnandi, uns hann kemur aftur. Undirbúningur fyrir kvöldmáltíðina felur í sér sjálfsrannsókn, iðrun og játningu. Meistarinn stofnaði fótaþvottinn sem athöfn til að tákna endurnýjaða hreinsun, vilja til að þjóna öðrum í kristilegri auðmýkt og til að tengja saman hjörtu okkar í kærleika. Kvöldmáltíðarþjónustan er Opb öllum trúuðum kristnum mönnum.
(Matt. 26.17-30; Jóh. 6.48-63; 13.1-17; 1Kor. 10.6,17; 11. 23-30; Opb. 3.20.)

17. Andlegar gáfur og þjónusta

Guð gefur öllum þeim andlegar gjafir, sem heyra söfnuði hans til, og hver safnaðarmaður á að nota þær í kærleiksríkri þjónustu söfnuðinum og öllu mannkyni til heilla. Gjafarinn er Heilagur andi, sem útbýtir hverjum að vild sinni, og gjafirnar gera menn hæfa til að inna af höndum alla þjónustu, sem söfnuðurinn þarfnast til að gegna því starfi, sem Guð ætlar honum. Samkvæmt Heilagri ritningu eru þessar gjafir m. a. fólgnar í þjónustugreinum eins og trú, lækningu, spádómum, boðun, fræðslu, stjórnun, sáttargjörð, samúð, sjálfsfórnandi þjónustu og góðgerðarstarfsemi, mönnum til hjálpar og uppörvunar. Sumir eru kallaðir af Guði og innblásnir af Andanum til starfa í söfnuðinum sem hirðar, trúboðar, postular og fræðarar, sem sérstaklega er þörf fyrir til að búa meðlimina undir þjónustustarf, til að uppbyggja söfnuðinn til andlegs þroska og stuðla að einingu trúarinnar og þekkingu á Guði. Þegar safnaðarfólk notar þessar andlegu gáfur sem dyggir þjónar hinnar margbreytilegu náðar Guðs, er söfnuðurinn verndaður fyrir eyðileggingaráhrifum falskenninga, hann vex að þroska sem Guð veitir og byggist upp í trú og kærleik.
(Post. 6.1-7; Róm. 12.4-8; 1Kor. 12.7-11, 27, 28; Ef. 4.8, 11-16; 1. Tim. 3.1-13; 1Pét. 4.10, 11.)

18. Spádómsgáfan

Ein af gjöfum Heilags anda er spádómsgáfan. Þessi gáfa er auðkenni leifa safnaðarins og kom fram í hirðisstarfi Ellen G. White. Þar sem hún er sendiboði Drottins verða rit hennar varanleg og áreiðanleg uppspretta sannleika, sem veitir söfnuðinum huggun, leiðsögn, fræðslu og áminningu. Þau taka líka af öll tvímæli um að Biblían er sá staðall, sem allar kenningar og reynsla verður að miðast við.
(4Mós. 12.6; 2Kro. 20.20; Am. 3.7; Jl. 2.28, 29; Post. 2. 14-21; 2Tím. 3.16, 17; Heb. 1. 1-3; 19.10; 22.8, 9.)

19. Lögmál Guðs

Hinar miklu meginreglur lögmáls Guðs eru fólgnar í boðorðunum tíu og koma fram í lífi Krists. Þau bera kærleika Guðs vitni og sýna vilja hans og takMrk að því er varðar mannlega hegðun og samskipti og eru bindandi fyrir alla menn á öllum öldum. Þessi lagafyrirmæli eru grundvöllur sáttmála Guðs við lýð hans og viðmiðunin í dómi Guðs. Fyrir starf Heilags anda benda þau á synd og vekja vitund um þörf fyrir frelsara. Hjálpræði fæst ekki fyrir verk heldur einungis fyrir náð, en ávöxtur þess er hlýðni við boðorðin. Þessi hlýðni þroskar kristilega lyndiseinkunn og veitir vellíðan. Hún ber kærleika okkar til Drottins vitni og einnig umhyggju okkar fyrir samferðamönnunum. Hlýðni í trú ber vott um mátt Krists til að umbreyta líferni manna og hún styrkir því kristilegan vitnisburð.
(2Mós. 20. 1-17; 5Mós. 28, 1-14; Slm. 19. 7-14; 40.7, 8; Matt. 5.17-20, 20.36-40; Jóh. 14.15; 15.7-10; Róm. 8.3,4; Ef. 2.8-10; Heb. 8.8-10; 1Jóh. 2.3; 5.3; Opb. 12.17; 14.12.)

20. Hvíldardagurinn

Eftir sex sköpunardaga hvíldist hinn kærleiksríki skapari á sjöunda deginum og stofnsetti hvíldardaginn handa öllu mannkyni til minningar um sköpunina. Fjórða boðorð hins óumbreytanlega lögmáls Guðs býður okkur að virða þennan hvíldardag, sjöunda dag vikunnar, sem dag hvíldar, tilbeiðslu og þjónustu, í samræmi við kenningu og venju Jesú, herra hvíldardagsins. Hvíldardagurinn er dagur unaðslegs samfélags við Guð og menn. Hann er tákn um endurlausn okkar í Kristi, um helgun okkar, um hollustu okkar og er forsmekkur eilífrar framtíðar, sem okkur er búin í ríki Guðs. Hvíldardagurinn er ævarandi tákn Guðs um eilífan sáttmála milli hans og lýðs hans. Með því að halda þennan dag heilagan fagnandi frá kvöldi til kvölds, sólsetri til sólseturs, erum við að halda minningarhátíð um sköpunar- og endurlausnarstarf Guðs.
(1Mós. 2. 1-3; 2Mós. 20. 8-11; 31. 13-17; 3Mós. 23. 32; 5Mós. 5.12-15; Jes. 56.5, 6; 58.13,14; Esk. 20.12,20; Matt. 12.1-12; Mrk. 1.32; Lúk. 4.16; Heb. 4.1-11.)

21. Ráðsmennska

Við erum ráðsmenn Guðs sem hann hefur gefið tíma og tækifæri, hæfileika og eignir, gæði jarðarinnar og auðlindir hennar. Við erum ábyrg gagnvart honum að nota þau á réttan hátt. Við viðurkennum eignarrétt Guðs með því að þjóna honum og samferðamönnum okkar dyggilega og með því að standa skil á tíund og gefa fórnargjafir til boðunar fagnaðarerindis hans og til að stuðla að vexti og viðgangi safnaðar hans. Ráðsmennska er forréttindi sem Guð hefur gefið okkur til að rækta með okkur kærleika og sigrast á sjálfselsku og ágirnd. Ráðsmaðurinn gleðst yfir þeirri blessun sem öðrum hlotnast fyrir trúmennsku hans. (1Mós. 1. 26-28; 2. 15; 1Kro. 29.14; Hagg. 1.3-11; Mal. 3.8-12; Matt. 23.23; Róm. 15. 26, 27; 1Kor. 9.9-14; 2Kor. 8.1-15; 9.7.)

22. Kristileg breytni

Við erum kölluð til að vera guðrækið fólk og hugsanir okkar, tilfinningar og gjörðir eiga að vera í samræmi við grundvallarreglur himinsins. Til þess að Andinn geti endurskapað í okkur grundvallareðli Drottins tökum við aðeins þátt í því sem leiðir til kristilegs hreinleika, heilbrigðis og fagnaðar í lífi okkar. Það merkir, að allt sem við gerum okkur til skemmtunar og afþreyingar á að standast hinar ýtrustu kröfur kristilegrar smekkvísi og fegurðarskyns. Þó að okkur sé ljóst, að fólk kemur úr mismunandi menningarumhverfi, á klæðnaður okkar að vera látlaus, siðsamlegur og snyrtilegur og við hæfi þeirra sem meta ekki sanna fegurð eftir ytra útliti heldur hinum óforgengilega búningi hógværs og kyrrláts anda. Það merkir einnig að þar eð líkami okkar er musteri Heilags anda eigum við að annast hann skynsamlega. Auk þess sem við sjáum til þess að líkami okkar hljóti næga hreyfingu og hvíld eigum við að neyta hinnar heilsusamlegustu fæðu sem völ er á og forðast óhreina fæðu eins og hún er skilgreind í Biblíunni. Með því að neysla áfengra drykkja og tóbaks og ábyrgðarlaus notkun lyfja og vímugjafa er skaðleg líkamanum, eigum við einnig að forðast notkun slíkra efna. Þess í stað eigum við að ástunda hvaðeina sem færir huga okkar og líkama undir ögun Krists, sem vill að við séum heilbrigð, glöð og góð.
(1Mós. 7.2; 2Mós. 20.15; 3Mós. 11.1-47; Slm. 106.3; Róm. 12.1,2; 1Kor. 6.19, 20; 10.31; 2Kor. 6.14-7.1; 10.5; Ef. 5.1-21; Fil. 2.4; 4.8; 1. Tim. 2.9, 10; Tit. 2.11,12; 1Pét. 3.1-4; 1Jóh. 2.6; 3 Jóh. 2.)

23. Hjónabandið og fjölskyldan

Hjónabandið var stofnað af Guði í Eden og Jesús staðfesti að það væri ævilangt samband manns og konu í kærleiksríku samfélagi. Hinn kristni vinnur Guði hjúskaparheitið, ekki síður en makanum, og báðir aðilar eiga að vera sömu trúar. Gagnkvæm ást, virðing, tillitssemi og ábyrgð eru uppistaðan í slíku sambandi, sem á að endurspegla kærleika, helgi, innileika og varanleika sambandsins milli Krists og safnaðar hans. Varðandi hjónaskilnað kenndi Jesús að sá, sem skilur við maka sinn, nema vegna saurlifnaðar, og gengur að eiga annan, drýgi hór. Þótt sum fjölskyldubönd séu ekki að öllu leyti fullkomin þá geta hjón, sem gefast hvort öðru að öllu leyti í Kristi, öðlast kærleiksríkt samband fyrir handleiðslu Andans og umönnun safnaðarins. Guð blessar fjölskylduna og ætlast til að þeir, sem henni tilheyra, hjálpi hver öðrum til að öðlast fullan þroska. Foreldrar eiga að ala börn sín þannig upp, að þau læri að elska Guð og hlýða honum. Með fordæmi sínu og orðum eiga þeir að kenna þeim, að Kristur sé kærleiksríkur tyftari, ætíð mildur og nærgætinn og vilji að þau verði limir á líkama hans, fjölskyldu Guðs. Vaxandi samkennd fjölskyldunnar er eitt af einkennum síðasta boðskapar fagnaðarerindisins.
(1Mós. 2. 18-25; 2Mós. 20.12; 5Mós. 6.5-9; Okv. 22.6; Mal. 4.5,6; Matt. 5.31, 32; 19. 3-9, 12; Mrk. 10.11, 12; Jóh. 2.1-11; 1Kor. 7.7, 10, 11; 2Kor. 6.14; Ef. 5.21-33; 6.1-4.)

24. Þjónusta Krists í hinum himneska helgidómi

Á himnum er helgidómur, hin sanna tjaldbúð, sem Drottinn reisti en ekki maður. Í honum þjónar Kristur fyrir okkur og veitir trúuðum blessun friðþægingarfórnar sinnar sem færð var á krossinum í eitt skipti fyrir öll. Hann var vígður sem hinn mikli æðsti prestur okkar og hóf meðalgöngustarf sitt við uppstigningu sína. Árið 1844, við lok 2300 daga spádómstímans, hóf hann síðari þátt friðþægingarþjónustu sinnar. Það er dómsrannsókn, sem er þáttur í endanlegri útrýmingu allrar syndar, og var hreinsun hins forna helgidóms Hebrea á friðþægingardeginum táknmynd af henni. Í þessari táknrænu þjónustu var helgidómurinn hreinsaður (honum komið í samt lag) með blóði fórnardýranna en himneskir hlutir hreinsast með hinni fullkomnu fórn, blóði Jesú. Dómsrannsóknin Opberar hinum himnesku verum hverjir hinna dánu hafi sofnað í trú á Krist og séu því í honum verðugir að fá hlutdeild í fyrri upprisunni. Hún Opberar einnig hverjir meðal hinna lifandi breyti í lífi sínu eftir kenningu Krists, varðveiti boðorð Guðs og trúna á Jesú og séu í honum viðbúnir að verða ummyndaðir og teknir inn í eilíft ríki Guðs. Þessi dómsrannsókn staðfestir að Guð sé réttlátur er hann frelsar þá sem trúa á Jesú. Þar er því lýst yfir að þeir, sem haldið hafa tryggð við Guð, skuli ríkið erfa. Við lok þessarar þjónustu Krists miðast endir náðartímans, rétt fyrir endurkomu Krists.
(3Mós. 16; 4Mós. 14. 34; Esk. 4.6; Dan. 7.9-27; 8.13,14; 9.14-27; Heb. 1.3; 2.16,17; 4.14-16; 8.1-5; 9.11-28; 10.19-22; Opb. 8.3-5; 11.19; 14.6, 7; 20.12; 14.12; 22.11,12.)

25. Endurkoma Krists

Endurkoma Krists er hin sæla von safnaðarins, háMrk fagnaðarboðskaparins. Koma frelsarans verður bókstafleg, persónuleg, sýnileg um víða veröld. Þegar hann kemur aftur munu hinir réttlátu, sem dánir eru, rísa upp og verða ásamt þeim réttlátu, sem á lífi eru, dýrlegir gjörðir og síðan farið með þá til himins, en hinir ranglátu munu deyja. Þar sem nær allir spádómar hafa uppfyllst og í ljósi núverandi ástands heimsmála, má sjá að koma Krists er í nánd. Ekki hefur verið Opberað hvenær þessi viðburður muni eiga sér stað og þess vegna erum við áminnt um að vera reiðubúin hvenær sem er.
(Matt. 24; Mrk. 13; Lúk. 21; Jóh. 14.1-3; Post. 1.9-11; 1Kor. 15.51-54; 1Þess. 4.13-18; 5.1-6; 2Þess. 1.7-10; 2.8; 2Tím. 3. 1-5; Tít. 2.13; Heb. 9.28; Opb. 1.7; 14.14-20; 19.11-21.)

26. Dauðinn og upprisan

Laun syndarinnar er dauði. En Guð sem einn er ódauðlegur mun gefa sínum endurleystu eilíft líf. Fram að þeim degi er dauðinn öllum mönnum sem meðvitundarlaust ástand. Þegar Kristur, lífgjafi okkar, birtist, munu hinir réttlátu upprisnu og hinir lifandi réttlátu verða dýrðlegir gjörðir og hrifnir upp til fundar við Drottin sinn. Síðari upprisan, upprisa hinna ranglátu, verður þúsund árum síðar.
(Job. 19.25-27; Slm. 146.3,4; Préd. 9.5,6,10; Dan. 12.2,13; Jes. 25.8; Jóh. 5. 28, 29; 11. 11-14; Róm. 6.23; 16; 1Kor. 15.51-54; Kol. 3.4; 1Þess. 4. 13-17; 1. Tím. 6.15; Opb. 20. 1-10.)

27. Þúsund árin og endalok syndarinnar

Milli fyrri upprisunnar og hinnar síðari er Kristur ásamt hinum heilögu á himnum í þúsund ár. Á þeim tíma verða hinir óguðlegu dánu dæmdir. Jörðin er þá auð og tóm. Þar eru engir menn á lífi, aðeins Satan og englar hans búa þar. Þegar þúsund árin fullnast mun Kristur ásamt hinum heilögu og borgin helga stíga ofan af himni niður til jarðarinnar. Þá verða hinir ranglátu dánu reistir upp og ásamt Satan og englum hans munu þeir umkringja borgina, en eldur frá Guði mun eyða þeim og hreinsa jörðina. Þannig mun alheimurinn losna við synd og syndara að eilífu.
(Jer. 4. 23-26; Esk. 28. 18, 19; Mal. 4.1; 1Kor. 6.2,3; Opb. 20; 21.1-5.)

28. Ný jörð

Á hinni nýju jörð, þar sem réttlætið býr, mun Guð gefa hinum endurleystu eilíft heimili og fullkomið umhverfi fyrir eilíft líf, kærleika, hamingju og fræðslu í návist hans. Guð mun sjálfur búa hjá lýð sínum og þjáningar og dauði verða horfin. Átökunum miklu verður lokið og syndin er þá ekki framar til. Allir hlutir, lifandi og dauðir, munu þá kunngjöra að Guð sé kærleikur og að hann muni ríkja um eilífð. Amen.
(Jes. 35; 65. 17-25; Matt. 5. 5; 2Pét. 3.13; Opb. 11.15; 21.1-7; 22. 1-5.)